Þýskur kunningi minn spurði ?>

Þýskur kunningi minn spurði

Þýskur kunningi minn spurði mig hvort ég hefði áhuga á að fara með honum í kröfugöngu. Þar sem ég hef afar gaman af hvers konar gönguferðum ákvað ég að slá til. Á leiðinni að staðnum þar sem gangan átti að byrja velti ég því fyrir mér hvað það gæti verið sem ég væri að fara að krefjast. Þegar þangað var komið fékk ég að vita að gangan var til að mótmæla stríði. Nánar tiltekið stríðinu gegn eiturlyfjum. Aðal krafan var að aflétta banni á sölu og neyslu kannabisefna.

Þar sem ég er frjálst hyggjandi maður get ég tekið undir þessa kröfu. Mín skoðun er að fólk eigi að segja nei við eiturlyfjum á heilsufarslegum forsendum en ekki lagalegum. Raunar er ég almennt á móti forræðishyggju yfirvalda. Ég tel að því meira sem stjórnvöld hugsa fyrir fólkið þá minnkar geta fólksins til að hugsa á eigin forsendum. Til dæmis er ég viss um að margir nota bílbelti einungis til að forðast sekt en ekki vegna þess að það gæti bjargað lífi þeirra ef óhapp bæri að höndum.

Bann við neyslu eiturlyfja er svo sem ekki efst í forgangsröð minni yfir þau ríkisafskipti sem ég vil mótmæla. Ég ákvað samt sem áður að slást í hópinn með kröfugöngugörpunum.

Skipulag göngunnar var afar skemmtilegt. Technotrukkar óku með reglulegu millibili og sáu göngufólkinu fyrir tónlist. Milli þeirra dansaði fólkið um göturnar. Dansað var frá aðalbrautarstöðinni yfir á Dam torgið. Þar var technotrukkunum lagt allt í kringum torgið og sáu þeir til þess að fólkið gæti dansað áfram fram eftir degi.

Skildu eftir svar