Síðustu dagar hafa verið
Síðustu dagar hafa verið afar sólríkir og heitir. Sannkölluð rjómablíða. Persónulega finnst mér þetta eiginlega full mikið af hinu góða. Ég vona að Amsterdam sýni sitt rétta andlit á næstunni og það fari að rigna. Sólin má svo fara að skína á ný um miðjan júlí, þegar ég er kominn í sumarfrí.
Um kvöldmatarleytið sat ég inni í eldhúsi og svitnaði yfir súpunni minni. Ég blótaði í hljóði góða veðrinu sem var að gera útaf við mig. Keníski nágranni minn kom inn í eldhúsið og sagði eitthvað á þessa leið: "Ótrúlegt hvernig fólk virðist umturnast við að sjá smá sólarglætu." Mér varð hugsað til þess þegar ég sá hann fyrr um daginn á leiðinni í skólann. Hann gekk með dúnúlpuna sína rennda upp í háls fram hjá hálf nakta fólkinu sem lá í grasinu og sólaði sig.