Skellti mér á skauta
Skellti mér á skauta eftir kvöldmatinn. Eins og áður gekk mér bærilega að standa í lappirnar, svo framarlega sem ég þurfti ekki að stoppa. Að stoppa kann ég alls ekki. Eftir að hafa skautað um stund án þess að þurfa að stoppa ákvað ég að segja þetta gott og halda heim á leið. Á leiðinni þurfti ég að fara niður smá brekku. Áður en ég kom að brekkunni hugsaði ég með mér hvort það væri nokkuð sniðugt að skauta niður hana, með það í huga að ég kann alls ekki að stoppa. Ég lét þó slag standa og lagði af stað niður brekkuna. Þegar ég var hálfnaður niður á jafnsléttu datt eitt hjólið undan öðrum skautanum og ég datt á rassinn … eða ég datt á rassinn og eitt hjólið datt undan öðrum skautanum … látum það liggja á milli hluta hvert orsakasamhengið var … allavegana endaði ferðin þannig að ég sat á götunni í tveimur skautum með sjö hjólum. Ég var þó snöggur á fætur, skellti mér úr skautunum og í skó og fór seinasta spölinn heim fótgangandi.