Ég átti í mestu
Ég átti í mestu vandræðum með að umbera hitann í dag. Ég ákvað því að reyna að finna sundlaug svo ég gæti kælt mig niður. Eftir að hafa ráðfært mig við Gulu bókina valdi ég mér sundlaug sem leit vel út á pappírunum. Þegar þangað var komið sá ég að hún leit einnig vel út í raun. Ýmislegt var frábrugðið sundstöðunum á Íslandi. Til dæmis eru engir kranar við sturturnar. Þeim er stjórnað af ljósnemum. Það er því ekki hægt að hengja sundskýluna á kranann meðan á þvotti stendur. Það er nú kannski bara ágætt því að það minnir mann á að sturturnar eru bæði fyrir karla og konur. Sundlaugin var afar fín. Fimmtíu metra útilaug, köld og hressandi. Mér gekk afar vel að forðast að synda á sundlaugarbakkana. Það var langt síðan ég hafði skellt mér í sund í útlöndum án þess að fá gat á hausinn. Eftir að hafa synt sexhundruð metra skrapp ég í tyrkneskt bað. Það var afar gott að geta slappað af í gufunni. Þegar ég kom út úr baðinu sá ég eitthvað sem leit út fyrir að vera heitur pottur. Við nánari athugun reyndist þetta fyrirbæri raunar vera nær því að vera skautasvell. Ég ákvað því að láta það eiga sig að sinni og hélt heim á leið eftir að hafa skolað af mér klórinn.