Ég náði að klára ?>

Ég náði að klára

Ég náði að klára í dag forrit sem ég er búinn að vera að puða við undanfarið. Forritið var lausn á verkefni sem var sett fyrir í kúrsinum Autonomous Learning Systems. Verkefnið fólst í því að búa til forrit til að læra hlutmengi í mengi allra strengja. Forritið fær sem inntak nokkra strengi sem eru í menginu (dæmi) og nokkra strengi sem ekki eru í menginu (mótdæmi). Forritið skilar af sér lýsingu á stöðuvél sem ber kennsl á öll dæmin en hafnar öllum mótdæmunum. Stöðuvélin er ekki minnkanleg (Þ.e. ekki er hægt að steypa saman stöðum án þess að það leiði til að vélin beri kennsl á mótdæmi). Hér er forritið sjálft. Ég vil þó vara við að notendaviðmótið er afar slæmt. Enda er slíkt viðmót ekki mín sérgrein. Reyndar er það mín skoðun að hugbúnaðargerð væri dásamleg ef ekki væru þessir notendur alltaf að þvælast fyrir.

Samkvæmt fræðunum er ekki unnt að læra flókin viðfangsefni með dæmum einum saman. Mótdæmi eru nauðsynleg. Kennarinn í ALS hefur oftar en einu sinni reynt að vekja athygli okkar á því að skrýtið sé hversu börn eru dugleg að læra tungumál þó þau fái nær eingöngu dæmi en næstum aldrei mótdæmi. Ég er ekki sammála honum í þessu efni. Ég held að börn fái heilmikið af mótdæmum, því að þau eru jafnan leiðrétt þegar þau beita málinu rangt. Þetta getur þó verið misjafnt eftir löndum. Kannski hefur náttúran neytt Íslendinga til að nota mótdæmi (leiðréttingar), þar sem íslenska er talsvert flóknara mál en t.d. enska og hollenska (a.m.k. setningarfræðilega).

Skildu eftir svar