Ég hélt áfram þar
Ég hélt áfram þar sem frá var horfið í gær við að leysa verkefnið fyrir Information Retrieval. Ég náði að lokum að klára það. Þá hafði ég metið þrjár leitarvélar með því að leggja fyrir hverja þeirra 20 fyrirspurnir. Fyrir hverja fyrirspurn leit ég á fyrstu 20 vefsíðurnar sem vélin skilaði og ákvarðaði hvort þær innihéldu svör við fyrirspurninni. Samtals skoðaði ég 1200 vefsíður. Samt sem áður er ég ekki miklu nær um það sem ég var að leita að. Til dæmis veit ég ekki hver launamunur kynjanna er. Ekki veit ég heldur hverjar eru 38 bestu leiðirnar til að koma Barney the Dinosaur fyrir kattarnef. Hins vegar er ég miklu nær um það hvernig best er að finna svör við þessum spurningum (og raunar einnig hvernig finna eigi ekki svör við þessum spurningum).
Þýskur kunningi minn benti mér á að það hefði verið íslensk hljómsveit hér í upphafi mánaðarins. Hann minnti að hljómsveitin hafi heitið Borkurros. Hann hefur greinilega tengt saman nafnið mitt og nafn hljómsveitarinnar. Seinna hefur hann gleymt hvort hann notaði for- eða eftirnafnið mitt í tenginguna. Sigurrós var nefnilega hér í borg um mánaðarmótin.