Þegar ég finnski nágranni
Þegar ég finnski nágranni minn sagði mér frá því að hann hugðist fylgjast með umferðinni í kvöld, hugsaði ég með mér: "Hann er líklega búinn að lesa yfir sig". Þegar líða tók á samtalið varð mér ljóst að hann hugðist fara í bíó og sjá myndina Traffic. Ég ákvað að skella mér með honum.
Þegar við komum í kvikmyndahúsið voru langar biðraðir við miðasöluna. Á upplýsingaskilti stóð að einungis væru 22 miðar óseldir á myndina. Hvað var þá til ráða? Við skiptum liði. Ég tók mér stöðu í einni biðröðinni. Nágranninn reyndi hins vegar að múta fólki sem var framarlega í biðröðinni til að kaupa handa okkur miða. Enginn freistaðist til að taka tilboði hans. Við urðum því að bíða vona að ekki yrði uppselt áður en kæmi að okkur. Biðröðin fyrir framan okkur styttist. Jafnframt tilkynnti upplýsingaskiltið okkur að óseldum miðum fækkaði. Þegar einungis tveir voru fyrir framan okkur í biðröðinni voru fjórir miðar óseldir. Undanfarar okkar keyptu tvo þeirra. Þegar við báðum um miða var svarið: "Því miður. Það er uppselt." Við náðum varla að andvarpa áður en afgreiðslustúlkan sagði okkur að bíða andartak. Hún fór og talaði við starfsfélaga sinn sem hafði kallað á hana. Hún kom stuttu seinna til baka með síðustu tvo miðana á Traffic.
Myndin var hin fínasta afþreying. Helmingur hennar kom þó heldur spánskt fyrir sjónir. Hann gerðist í Mexíkó og voru öll samtöl á máli heimamanna. Fyrir þá sem ekki skildu spænsku var auðvitað texti. Æ hvað ég vildi að ég kynni hollensku. Ekki þýddi neitt að fletta upp í orðabókinni í myrkvuðum salnum.