Vaknaði snemma, pakkaði niður
Vaknaði snemma, pakkaði niður nokkrum sokkum og fór niður á aðalbrautarstöð. Þar beið mín lestin sem átti að flytja mig til kölnar. Eftir um stundar ferðalag var kominn tími á kaffi. í veitingavagninum var mér tjáð að vegna rafmagsleysis væri kaffivélin óvirk. Kaffivélin er sú vél sem knýr mig áfram. Líklega er það önnur vél sem knýr lestir áfram því að lestin hélt áfram ferðinni. Eða hvað? Smám saman tók lestin að hægja á sér uns hún stoppaði. Það tók um hálftíma að gera við kaffivélina svo að lestin gæti haldið áfram ferðinni.
Dísa tók á móti mér á lestarstöðinni í Köln. Við byrjuðum á að skoða dómkirkjuna og skokka upp í kirkjuturninn, sem er meira en tvöfalt hærri en hæsta fjall Hollands. Næst brugðum við okkur á Karneval og fengum okkur bjór. Það er ekki einfalt ferli að fá sér bjór á Karnevali. Fyrst þarf að fara í miðasölu og kaupa miða. Næst þarf að fara í glasavagninn og skipta á miðanum og glasi. Að lokum þarf að fara í bjórtjaldið til að fá bjór í glasið.
Um kvöldið brugðu svo Hiawatha (ég), Lína Langsokkur (Dísa) og apinn Níels (gettu!) sér í bæinn til að taka þátt í karnevali. Það var mögnuð lífsreynsla að taka Þátt í 7km (skv mbl.is) langri skrúðgöngu. Alls staðar var fólk. Allir í grímubúningum og að dansa salsa.