Prófaði háskólamötuneytið sem staðsett ?>

Prófaði háskólamötuneytið sem staðsett

Prófaði háskólamötuneytið sem staðsett er í nágreni skrifstofunnar minnar. Þetta er sko engin VR-sjoppa heldur alvöru mötuneyti. Ég hafði lesið einhvers staðar að hægt væri að fá rétt dagsins, súpu, kjöt/fisk/grænmeti, og eplaböku fyrir 6 gyllini. Þegar á staðinn var komið komst ég að því að svo var ekki. Hins vegar var þetta heljar stórt hlaðborð þar sem hægt var að velja sér allt milli himins og jarðar. Ég ákvað að fá mér kínverska núðlusúpu, rúnstykki, djúpsteiktan ost og Fanta-legan gosdrykk. Þegar búið var að greiða fyrir matinn var næsta skref að finna sér sæti. Ég leit yfir borðsalinn. Hann var nokkuð þétt setinn en laus sæti hér og þar. Ég velti því fyrir mér hvort það væri einhver ákveðin sætaskipan eins og í amerísku bíómyndunum. Ruðningshetjurnar á einu borði, klappstýrurnar á öðru og nördarnir á því þriðja. Ég valdi mér borð þar var fólk sem hvorki leit út fyrir að vera ruðningshetjur né klappstýrur. Maturinn bragðaðist all sæmilega. Það fór að vísu ekki mikið fyrir núðlunum í kínversku núðlusúpunni. Hins vegar fann ég eina pastaskrúfu. Eiginlega var þetta bara vatn og bragðefni (hugsanlega beinamjöl).

Í kvöld var svo sundlaugarpartí í húsinu mínu. Sundlaugin var uppblásin og ekki lögleg keppnislaug. Kynntist nokkuð af nýju fólki. Hitti m.a. nýsjálenska stelpu sem gat staðfest þá sögusögn sem ég hafði heyrt að nýsjálenskt sauðfé gengi sjálfala allan ársins hring. Engin furða að lambakjötið þeirra er ódýrara í framleiðslu en hið íslenska.

Skildu eftir svar