Ég hafði hugsað mér ?>

Ég hafði hugsað mér

Ég hafði hugsað mér að sofa lengi frameftir í morgun til að geta vakað lengi í kvöld og vaknað snemma í fyrramálið. Þau plön urðu að engu þegar dyrabjöllunni var hringt. Maðurinn sem hringdi sagðist vera með pakka handa mér. Þar sem ég átti von á skemmtilegum pakka að heiman varð ég ofsakátur og hentist niður stigann. Þegar niður var komið reyndist sendingin ekki vera að heiman, heldur frá bankanum mínum. Í pakkanum var einn sá allra fáránlegasti hlutur sem ég hef nokkru sinni séð. Áður en ég lýsi tilgangi (tilgangsleysi) hlutarins þarf ég að koma með smá inngang. Hér í Hollandi eru reikningar borgaðir með því að skrifa bankareikningsnúmer á reikninginn og setja hann síðan í sérhannað umslag og senda í pósti til bankans. Hluturinn sem ég fékk frá bankanum var úr harðplasti, 26cm x 16cm x 4cm, að stærð. Hlutverk hans var að geyma áðurnefnd sérhönnuð umslög. Hluturinn er raunar svo rammgerður að ég treysti honum betur en bankanum til að geyma peningana mína. Ætli ég breyti honum barasta ekki í nokkurns konar heimabanka.

Ótrúlegt en satt. Það rigndi ekki í Amsterdam í dag. Þvert á móti var sól og blíða. Ég notaði því tækifærið til að þramma fram og aftur um stræti borgarinnar.

Eftir kvöldmat skrapp ég í heimsókn til Hanno. Þar horfðum við á Jackie Chan mynd og undirbjuggum okkur til að skreppa út á lífið. Þar sem stólarnir voru svo þægilegir og bjórinn góður, ákváðum við að horfa á aðra J.C. mynd. Fyrst við vorum nú að horfa J.C. á annað borð, hví ekki að horfa á þrjár.

Ég kom heim kl:2.20, pakkaði niður nokkrum sokkum og fór að sofa.

Skildu eftir svar