Skriffinsku dagur. ég notaði
Skriffinsku dagur. ég notaði daginn til að ganga frá þeirri formlegu pappírsvinnu sem ég átti eftir að ganga frá. ég byrjaði á að fara í bankann í næstu götu og til að stofna bankareikning. Þar sem ég hafði ekki meðferðis ljósrit af passanum mínum þá þurfti ég að fara í banka niðri í bæ til ad stofna reikninginn. ég fór því niður í bæ og stofnaði reikninginn. Þegar afgreiðslukonan hafði lokið vinnu sinnni lét hún mig hafa stafla af pappírum og sagði glottandi: "Hér er stafli af pappírum sem þú skalt lesa. Þeir eru allir á hollensku þannig að þú verdur að fara ad læra málið". Það virðast því framundan langar stundir með orðabókinni minni.
Eftir bankann rölti ég um miðbæinn í leit að stað til að láta taka af mér passamyndir. Sú leit tók talsverðan tíma en ég notaði hann til að kynnast miðbænum.
Eftir myndatökuna þurfti ég að fara og sækja um landvistarleyfi. Það var gert hjá útlendingaeftirlitinu. Útlendingaeftirlitið er staðsett í útkjálka Amsterdam og ég hafði ekki hugmynd um hvernig best væri að komast þangað. Ég fór því á adallestarstöðina til að reyna að finna út leiðina. Þar var svo mikill ys og þys og löng bið eftir að komast í upplýsinga miðstöðina að ég gafst upp og rölti upp á Waterlooplein lestarstöðina til að komast í aðeins rólegra umhverfi. Þar spurðist ég fyrir um hvernig ég kæmist til Johan Huizingalaan 757. Karlinn við upplýsingaborðið klóraði sér í hausnum, sagði "hmmm", klóraði sér aftur í hausnum og sagði "Take the METRO nr 51 and go to Pootjesweg". ég stökk því inn í METRO nr 51 og byrjaði að reyna að finna út hvenær ég ætti að fara af lestinni. Ég gat hins vegar ekki með nokkru móti fundið Pootjesweg í upptalningunni á þeim stöðum sem METRO 51 stoppar. Ég ákvað því að skella mér á Amstel. Ekki það að ég væri búinn að gefast upp og byrjaður að drekka, heldur skellti ég mér út á lestarstöðinni Amstel til að athuga hvort þar væri einhver frekja sem gæti gefið mér frekari leiðbeiningar. Þar komst ég að því að ég ætti að taka METRO 51 til Zuid WTC og taka þaðan METRO 50 til Pootjesweg. Eftir þessar leiðbeiningar gekk mér vel að komast til Pootjesweg. Ég held meira að segja að ég sé nokkurn veginn búinn að skilja hvernig lestarkerfið virkar.
Nú var það bara að spyrjast fyrir um hvernig ég kæmist til Johan Huizingaalan 757. (Framburðurinn á götunnu er ekki alveg "straight forward") Leiðin þangað reyndist vera "straight forward down his road until you get to the trafficlights, then turn left". ég sá nú engin umferdarljós svo langt sem augað eygði en eftir að hafa gengið í talsverdan tíma fór að glytta í þau. ég baðst fyrir á leidinni um add ég kæmi ekki inn á Johan Huizingaalan nr 1 og þyrfti að labba alla leiðina til 757, því að skórnir mínir frömdu meinsæri og gáfu mér hælsæri. ég var bænheyrður. ég kom inn á götuna við hús nr 73. Bara tæplega 350 hús til add fara framhjá. Þessi gata er annars sálfrædilega mjög vel uppbyggð. Byrjað er að brjóta mann niður andlega þannig að maður hugsar: "Æ, nú á ég eftir að ganga framhjá tæplega 350 húsum til að komast á leiðarenda". Fyrst er gengið fram hjá raðhúsum. Hús nr 75, hús númer 77, o.s.frv. U.þ.b. við hús númer 100 byrjar svo andleg uppbygging. Komið er að blokk þarrr sem utan á fyrsta stigaganginum stendur 101-133 og á þeim næsta 153-167. Við þessa sýn byrjar maður að hugsa: "Jibbí, núna gekk ég fram hja’ 100 húsum með tví að ganga fram hjá þremur stigagöngum". Þetta reyndist því ekki vera eins löng ganga eins og í upphafi virtist vera, en þó alveg feiki nógu löng. Þegar til eftirlitsins var komið þurfti ég bara að skila inn umsókninni og þeir sögðust ætla að kalla á mig í viðtal eftir fjórar vikur.
Þegar heim var komið var ég hreinlega uppgefinn eftir að hafa verið á göngu nánast allan daginn. Lagði mig og fékk mér svo indverskan takeaway. Bragðaði síðan aðeins á Jamaíkaískum kalkúnapottrétti elduðum af Nígeríumanni sem hefur búið mest allt sitt líf í Bandaríkjunum en býr nú í Amsterdam. Sem sagt fjölþjóðlegt matarkvöld.
Á göngunni í dag kynni ég mér aðeins fuglalífið hér í borg. Ég sá álftir, stokkendur, einhvers konar máfa og svartan fugl sem kallaði fram úr undirmeðvitundinni orðið béshæna. Spurning dagsins: Hvadda andarlegi fugl er svartur með hvítan díl sem nær yfir enni og nef? (svör sendist á spurning@borkur.net).