Nýársfagnaður rökfræðideildarinnar var haldinn
Nýársfagnaður rökfræðideildarinnar var haldinn með pompi og prakt um kaffileytið. Þar var tækifærið nýtt til að kynna og kynnast nýjum starfsmönnum deildarinnar sem og nýjum nemendum. Skálað var í kampavíni og snittum skolað niður með hollenskum bjór. Þetta var e.k. vísindaferð þar sem við heimsóttum okkur sjálf.
Eftir hófið skrapp ég niður í bæ með tveimur finnskum kunningjum mínum og við fengum okkur að borða. Eins og rökfræðinemum sæmir reyndum við að leiða rökum að því hvernig best væri að velja stað til að borða á. Við settum fram þá kenningu að staður sem hefði engin laus borð væri góður staður en staður með öll borð laus væri slæmur staður. Eftir að hafa gengið um stund komumst við að því að almennt voru staðirnir fullir eða tómir. Það leit því út fyrir að við myndum svelta heilu hungri. Í þá mund sem við vorum að gefa upp alla von um að geta fengið okkur að borða á stað sem væri næstum góður, birtist okkur hollenskur matsölustaður sem seldi kjúkling og franskar að hætti Hollendinga.