Ákvað að slá þrjar ?>

Ákvað að slá þrjar

Ákvað að slá þrjar flugur í einu höggi í morgun, prófa hjólið mitt, kynnast borginni betur og athuga verð á tölvum. Hjólið mitt reyndist mæta væntingum mínum fullkomlega, það var hreinlega að hrynja í sundur. Ég var búinn að finna álitlega tölvubúð í öðrum enda borgarinnar. Ég leit á kort og áttaði mig á hvaða leið ég þyrfti að hjóla. Ferðin gekk yfir í hinn enda borgarinnar gekk vel. Þegar þangað var komið varð gengið ekki eins hagstætt. Mér tókst tiltölulega fljótlega að vita ekki hvar ég var, jafnvel þótt ég reyndi að ráðfæra mig við kort (að vísu slappt kort). Einn af helstu kostum Amsterdam er að það er auðvelt að rata ekki um borgina, þ.e.a.s. það er auðvelt að komast leiðar sinnar þó að maður rati ekki neitt. Vegna aðstæðna ákvað ég að hætta leit að tölvubúðinni og reyna þess í stað að finna leið heim án þess að líta á kort. Ég hélt því af stað í þá átt sem ég taldi vera vænlegasta. Þó að ég vissi ekki hvar ég væri þá var ég ekki búinn að tapa áttum. Eftir að hafa hjólað um stund um ókunn lönd þá komst ég á kunnuglegar slóðir og var kominn heim fyrr en varði. Þegar ég skoðaði svo seinna um daginn kort þá komst ég að því að ég hafði hjólað allt í kringum tölvubúðina.

Ég varð að vísu ekki margs fróðari um verð á tölvum en fékkk ágætis æfingu í ratvísi. Einnig komst ég að því að ég ætla að hjóla eitthvað að ráði þá væri snjallt að kaupa betra hjól.

Skildu eftir svar