Hollendingar eru ekki mikið ?>

Hollendingar eru ekki mikið

Hollendingar eru ekki mikið fyrir að flýta sér um of. Fimmtudaginn 4.janúar sótti ég um að fá öryggispassa, svo ég hefði 24/7 aðgang að skrifstofunni minni (24/7 á að tákna 24 tíma sólarhringsins og 7 daga vikunnar). Mánudaginn 8.janúar mætti ég í myndatöku fyrir passann. Þá var verið að mála myndatökuherbergið svo að ekki var hægt að taka myndir. Mér var sagt að prófa aftur i vikunni á eftir. Mánudaginn 15.janúar mætti ég aftur í myndatöku. Enn var verið að mála herbergið og ekki leit út fyrir að þeirri vinnu lyki fyrr en á miðvikudeginum. Miðvikudaginn 17.janúar mætti ég enn í myndatöku. Ekki hafði tekist að ljúka málverkinu en hins vegar hafði myndavélinni verði stillt upp til bráðabrigða í öðru herbergi. Það reyndist því unnt að taka af mér myndir. Nú átti bara eftir að búa til passann og mér var tjáð að hann yrði tilbúinn á föstudeginum. Föstudaginn 19.janúar mætti ég til að ná í passann minn. Því miður hafði sá sem býr til passana brugðið sér í frí í vikulokin og ekki reyndist unnt að finna neinn sem gæti hlaupið í skarðið. Konunni í afgreiðslunni þótti þetta afar leitt og bauðst til að senda öryggisvörðunum nafnið mitt svo ég gæti notað skrifstofuna um helgina. Sú sending hefur líklega farið með sjópósti því þegar ég hugðist nota skrifstofuna vildu öryggisverdirnir ekkert kannast við nafnið mitt og það tók mig talsverðan tíma að fá þá til að hleypa mér inn. Það gekk þó á endanum. Ég þurfti reyndar einnig að beita sannfæringarkrafti mínum til að fá verðina til að hleypa mér út aftur. Það gekk þó á endanum.

Skildu eftir svar