Ég fagnaði nýrri öld ?>

Ég fagnaði nýrri öld

Ég fagnaði nýrri öld með því að vakna semma. Eftir að hafa morgunmatast tékkaði ég mig út og tók hótelskutluna út á flugvöll. Þaðan tók ég lest til Duivendrecht, skipti þar um lest og hélt á vit Amstel (þ.e. lestarstöðvarinnar Amstel). Þar steig ég af lestinni og gekk um hverfið með bakpoka á bakinu og ferðatösku í eftirdragi, í leit að staðnum þar sem ég átti að sækja lyklana að herberginu mínu. Það gekk nú bara vel enda ekki við ödru ad búast þar sem ég hafði í farteskinu lýsingu af leiðinni í máli og myndum. Eftir að hafa sótt lyklana skellti ég mér aftur á Amstel og hugðist taka METRO til Waterlooplein.

Þegar á Amstel var komið byrjaði ég að leita að merkingum um hvar METRO væri að finna. Loks fann ég merki þar sem stóð METRO og píla sem vísaði UPP! Eftir að hava ferðast með METRO bæði í París og Lundúnum var eitthvað sem sagði mér að með leiðbeiningum um hvar METRO væri að finna ætti fremur að vera píla nidur en upp. Ég hugsaði með mér: "Er ég að fara að læra rökfrædi í landi þar sem enginn botnar hvorki upp né niður í því hvað snýr upp og hvað niður. Botna þeir kannski bara niður í því sem snýr niður og halda að tvisvar sinnum niður geri upp?" Ég gat nú ekki gert upp við mig hvað ég ætti að halda en ákvað að halda upp tröppurnar eins og örin benti. Viti menn þar var METRO. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýr niður jú upp svo að það er nú ekki svo vitlaust að að hafa METRO á 1.hæð í stad -1.hæð. (dictionary.com: metro – A subway system – [French métro, short for (chemin de fer) métropolitain, metropolitan (railway), from Late Latin metropolitanus; see metropolitan.]).

Eftir að hafa ferðastum stund ofanjarðar (en þar með sagt ekki endilega yfir sjávarmáli) með METRO fór að halla undan hjóli og lestin steypti sér ofan í jörddina og hélt sig þar a.m.k. uns Waterlooplein var náð. Þegar út af lestarstöðinni var komið hugðist ég taka sporvagninn áleiðis heim í nýja herbergið. Svo kom sporvagninn. Hann virtist nú ekki ætla að stoppa við biðskýlið svo að ég ákvað að hlaupa fram med honum til að komast inn. Þegar komid var að framhlutanum var allt lok lok og læs. Ég bankaði á hurdina og vagnstjórinn leit á mig eitt augnablik og hélt síðan af stað (Ég komst svo að því síðar að eini inngangurinn í sporvagn er að aftan).

Eftir þessa misheppnudu tilraun til að komast um borð í sporvagn ákvað ég að ganga restina af leiðinni þar sem ég var í göngufæri, en kannski fremur þungu færi vegna bakpokans og ferðatöskunnar. Ég gekk um stund í þá átt sem sporvagninn fór í þeirri von um að þá yrdi auðratað. Eftir stutta stund ákvað ég að staðnæmdist ég á götuhorni til að líta á kort. Mér fannst einhvern veginn skemmtilegra að vita hvar ég væri. Eftir að hafa skoðað kortið og götuvísa í kringum mig um stund var ég engu nær um hvar ég væri nákvæmlega staddur. Þá gekk upp að mér gömul kona og spurði mig (á hollensku) hvort ég væri að leita að hóteli. Ég sagði "nej" og nefndi nafn götunnar sem ég var að leita að. Hún kinnkaði kolli og hóf að vísa mér til vegar (á hollensku og með handapati). Loks spurði hún mig (á hollensku) hvort ég hafði skilið það sem hún var að segja. Ég sagdi "ja, dank u wel", þó ég hafði nú ekki skilid það sem hún sagdi en taldi mig vita nokkurn veginn í hvaða átt hún hafi bent mér að fara. Ég hafði ekki verid alveg á réttri leið en samt ekki heldur neitt svo rangri leið. (Spurning dagsins: "Á havaða leið var ég þá?" (svar sendist á spurning@borkur.net)). Eftir að hafa haldið nokkurn veginn í þá átt sem ég taldi konuna hafa sagt, þá kom ég fljótt á götu sem ég kannaðist við nafnið á. Þaðan var auðratað á nýja heimilið.

Þegar komið var inn í húsið fór ég að reyna að komast að því hvar herbergi H4 var. Ég var hræddur um að það væri kannski í kjallara, að Hollendingar notuðu orðid hjallari fyrir kjallari, og ég væri í herbergi númer 4 í kjallaranum. En svo var nú aldeilis ekki. Þegar ég var hins vegar hálfnaður við að dröslast með mín 40 kíló upp á 5.hæð í lyftulausu húsinu, þá hugsaði ég með mér hversu miklu auðveldara hefði verið að flytja inn í kjallara. Þegar upp var komið var ég uppgefinn en jafnframt ánægður með útsýnið. Yfir síkin og nærliggjandi hús. Herbergið leit bara ágætlega út, 18 fermetrar, með borði, stól, hillu, skáp, rúmi, kommóðu og öðrum stól. Rúmið var að vísu ekki sérlega heillandi, lítið með skítugri dýnu og rúmbotninn saman settur af hörðum þverbitum og málmneti á milli þeirra. Afar hart á köflum en mjúkt þar á milli, en að meðaltali bara nokkuð gott. Rúmið skánaði þó mikið við að setja yfir dýnuna teppin sem ég átti að hafa ofan á mér og svo lak yfir allt saman. Þegar ég var svo búinn að búa um sængina mína og koddann þá leit þetta bara vel út.

Eftir að hafa komið mér fyrir var ég orðinn nokkuð svangur enda klukkan farin að ganga þrjú og ég ekkert borðað síðan hálf átta um morguninn. Ég ákvað því að athuga hvort ég fyndi einhvers staðar í nágreninu búðarholu, þar sem ég gæti keypt mér eitthvað í svanginn. Ég gekk um hverfið og leitaði en allt virtist lokað, enda nýársdagur. Ég ákvað þó að gefast ekki upp og rölti víðar. Brátt hætti leitin þó að snúast um ad finna eitthvað að borða yfir í að finna leiðina aftur heim. Það gekk nú þó vonum framar og þar að auki fann ég sjoppu sem seldi viðbjóðslega útlítandi kjötrétti og djúpsteiktan ost. Ég fékk mér því djúpsteiktan ost og hélt heim.

Ætisleit kvöldsins gekk betur. Ég fann flatbökugerð sem var opin.

Skildu eftir svar