Eyddi megninu af deginum ?>

Eyddi megninu af deginum

Eyddi megninu af deginum í að gera heimadæmi á skrifstofunni minni við afar athygliverðar aðstæður. Skrifstofubyggingin hefur háþróað hátalarakerfi til að láta vita þegar kviknað er í o.þ.h. Vegna þess að verið er að gera lagfæringar á byggingunni var ekki úr vegi að prófa kerfið í dag. Þetta var gert með því að útvarpa dagskrá hollenskrar útvarpsstödvar í gegnum kerfið. Ég hlustaði því á Britney Spears og fleira skemmtilegt meðan ég lærði. Þ.e.a.s. ef eitthvað heyrðist í hátalarakerfinu fyrir hávaðanum í loftbornum sem notaður er við lagfæringarnar á húsinu.

Hollendinar eyða ekki peningum í óþarfa. T. d. kynda þeir ekki skrifstofubyggingar um helgar. Sökum þess var hitastigið á skrifstofunni einungis 13 gráður. Það er því hætt við að heimadæmin mín séu illskiljanleg vegna skjálftaskriftar.

Ónæði er óhjákvæmileg afleiðing nábýlis í húsi með þunna veggi og gap á milli gólfs og hurðar. Ég komst að því þegar ég ætlaði í háttinn að ónæði getur verið margs konar. Það getur t.d. verið lítið, mikið, afsakanlegt eða óafsakanlegt. Ónæðið sem ég varð fyrir var annars vegar að nágranni minn spilaði vægast sagt háværa tónlist (Ef tónlist skildi kalla því að ég vil ekki tengja þessa framleiðslu hljóðs við list. Ég kann nú ekki vel á skilgreiningar tónliststar, en ég held að þessi gerð sé köllud eruo-trash eða ambient). Ég myndi flokka þetta ónæði sem mikið ónæði en aftur á móti er þetta afsakanlegt ónæði þar sem um laugardagskvöld var að ræða. Seinna ónæðið sem ég varð fyrir var einnig af völdum þessa sama nágranna. Það var þegar hann um miðnætti ákvað að fara að ryksuga herbergið sitt. Þetta ónæði var afar lítið enda er ryksugan lágvær og var nánast algjörlega yfirgnæfð af fyrrnefndum hávaða. Samt sem áður myndi ég flokka þessa gerð ónæðis sem óafsakanlega. Það ryksugar enginn á laugardagskvöldum, a.m.k. ekki á miðnætti. M.ö.o. er afsakanlegt ónæði á laugardagskvöldum einungis það ónæði sem leiðir af skemmtun ónæðisvaldsins.

Skildu eftir svar