Þegar ég hugðist slökkva
Þegar ég hugðist slökkva á vekjaraklukkunni í morgun áttaði ég mig á hversu hart ég var sperrtur eftir skokk gærdagsins. Á einhvern óútskýranlegan hátt tókst mér þó að slökkva á vekjaranum og dröslast á fætur. Fætur sem voru vægast sagt sárþjáðir af harðsperrum.
Það fer ekki vel saman að vera með harðsperrur í framanverðum lærunum og að ganga niður í móti. Þetta vissi ég í morgun þegar ég stóð á stigapallinum uppi á 5. hæð og bjó mig undir næstu skref í lífsins göngu. Sjötíu og fimm þrepum síðar var ég kominn út á götu, merkilega heill á húfi.
Afköst mín í dag voru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Flest sem ég gerði bar á sér þreytumerki. Ég náði þó að læra smá en skildi þó full mikið óklárað fyrir helgina.
Nú um helgina mun ég að öllum líkindum ekki þurfa að beita miklum sannfæringarkrafti á öryggisverði til að hleypa mér inn í og út úr skrifstofubyggingum. Ég fékk nefnilega öryggispassann minn afhentan í dag. Loksins. Þegar ég sótti um passann átti ég fína passamynd af mér og spurði hvort ekki mætti nota hana í passann í stað þess að ég þyrfti að mæta sérstaklega í heimsókn til öryggisvarðanna til að láta þá taka mynd af mér. Mér var þá tjáð að samkvæmt nýja kefinu þá myndu öryggisverðirnir þurfa fjórar myndir og þyrftu þær að vera á serstöku formi þannig að ekki kom annað til greina en að ég myndi mæta í myndatöku. Hvernig það gekk fyrir sig má lesa um í dagbókarfærslu s.l. sunnudags. Það kom mér því skemmtilega á óvart að í dag fékk ég afhentan öryggispassa með einni ólukkaðri mynd og þar að auki fékk ég þrjár ólukkaðaðar passamyndir sem ég mátti ráðstafa eftir eigin geðþótta.